Meistaraflokkurinn flytur
|
Grýluvöllur 2020? |
Fréttaveita meistaraflokks Hamars hefur flutt sig um set.
Framvegis munu allar fréttir af meistaraflokknum birtast á heimasíðu íþróttafélagsins Hamars (www.hamarsport.is). Eftir sem áður verður þessi síða virk, a.m.k. eins mikið verið hefur, og því hægt að spjalla um málefni meistaraflokksins og dótturfélags hans, F.C.Bjórvambar, áfram.
Fyrirhugað er að þessi síða muni í framtíðinn hýsa fréttir af stuðningsmannafélagi Hamars og því sem í gangi verður þar.
Fyrsti leikurinn í Lengjubikarnum
|
Marri í leiknum í gær |
Hamar spilaði sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum í gær, sunnudag, á móti liði Víðis frá Garði, leikurinn var liður í 2. riðli B-deildar. Leikið var í blíðskapar veðri í Reykjaneshöllinni þar sem nýja gervigrasið var reynt.
Líkt og vanalega tók það Hamarsmenn u.þ.b. 10 mínútur að hefja sinn leik og þegar það gerðist var staðan orðin 1-0 fyrir Víði. Sóknarmaður Víðis fékk stungusendingu inn fyrir vörnina, var á undan Hlyni í boltann og chippaði honum yfir og í markið. Víðismenn voru töluvert meira með boltann og voru skeinuhættari í flestum aðgerðum sínum á vellinum. Rétt áður en leikurinn var flautaður á bað Helgi formanninn að skjótast í smá sendiför fyrir sig, brást formaðurinn vel við þeirri bón en sagði að slíkt erindi kostaði eitt mark og það skyldi hann fá borgað ellegar hlyti Helgi verra af. Þegar nálgaðist svo lok fyrri hálfleiks og staðan 1-0 fyrir Víði, mundi Helgi allt í einu eftir skuld sinni við formanninn. Það var ekki að spyrja, Helgi fékk boltann á lofti rétt fyrir utan vítateig Víðismanna og smellti honum viðstöðulaust í markið. Staðan orðin 1-1 og var hún svo í hléi.
Síðari hálfleikurinn var fjörugur, mikið um pústra, kýlingar og færi. Sama var upp á teningnum varðandi byrjun og viðveru leikmanna Hamars. Víðir komst í 3-1 með 2 mörkum sem hefði mátt koma í veg fyrir. Flestir á hliðarlínunni bjuggust við að eftirleikurinn yrði auðveldur fyrir Víði en inn á vellinum var sveit vaskra manna sem voru ekki á sama máli. Zoran setti eitt með þrumuskoti af 20 metrum og breytti stöðunni í 3-2 og nýr leikur hafinn. Hamar sótti töluvert eftir þetta og uppskar vítaspyrnu þegar Víðsmaður handlék boltann inn í teig. Marri fór með boltann á punktinn og bjóst til að setja enn eitt vítið á ferlinum inn, enda spyrnukóngur mikill. Ekki fer ég að ljóstra upp hér á síðunni hvernig Marri tekur spyrnur en sú sem hann framkvæmdi í leiknum kom flestum á óvart, þversláin þvældist fyrir boltanum á leið sinni inn í markið og til að toppa allt þá skaust hann út í teig en ekki inn í markið. Undir lok leiksins komust svo Víðismenn í hraðaupphlaup sem endaði með marki, 4-2 og þar við sat.
Formleysið var eitthvað að hrjá mönnum sem og almennt skipulag á vellinum. Það tekur tíma að slípa saman hópinn og á heildina litið var leikur liðsins ekki svo slæmur, miðað við allt. Nýju strákarnir stóðu sig ágætlega í leiknum og þeir “gömlu” skiluðu flestir sínu. Næsti leikur liðsins er æfingaleikur við Stjörnuna og fer hann fram í Garðabæ laugardaginn 15. mars kl:11:00.
Lengjubikarinn og nýir leikmenn
|
Boltinn byrjaður að rúlla |
Næsta sunnudag, þann 9. mars, hefja Hamarsmenn leik í B-deild Lengjubikarsins. Mótherjar okkar eru Víðismenn úr Garðinum sem sigruðu 3. deildina í fyrra og munu þ.a.l. vera með okkur í 2. deildinni á komandi tímabili.
Þessi leikur verður fyrsti opinberi mótsleikur fimm nýrra liðsmanna Hamars. Þeir Ágúst Ingi Brynjarsson (KFS), Almar Björn Viðarsson, Hilmir Hjaltason, Kristinn Aron Hjartarson og Ágúst Örlaugur Magnússon (allir frá Kára) skiptu yfir til Hamars í vikunni og eru því löglegir í leikinn. Þá skiptu einnig "gamlir" Hamarsmenn yfir til okkar, Markverðirnir Simmi (Selfoss) og Hlynur (Ægir) eru nú löglegir eðalknattspyrnumenn og munu klæðast fallega bláa Hamarslitnum í sumar.
Við hvetjum Hvergerðinga sem og aðra unnendur sambabolta að kíkja í Reykjaneshöllina á sunnudaginn kl.14:00 og styðja við bak okkar manna. Frést hefur að formaðurinn muni mæta á svæðið með kaffi og kleinur fyrir ferðalanga úr Hveragerði og því ætti enginn að verða svikin af ferð til Keflavíkur.
Hamar að spila, heitt kaffi og mjúkar kleinur... það gerist varla betra
Hamar... bezt í heimi!!!