Hamar mætir ÆGI á ÞRIÐJUDAGINN í leik um að komast í 32. liða úrslitin c",)
Ár 2004, miðvikudaginn 26. maí er dómþing í Knattspyrnudómstól KSÍ háð af Hilmari Gunnlaugssyni, að Lagarási 4, Egilsstöðum.
Fyrir er tekið:
Mál nr. 2/2004
Knattspyrnudeild Hamars
gegn
knattspyrnudeild UMFH
Með kæru, dagsettri 21. maí 2004, móttekinni 25. maí 2004 af skrifstofu KSÍ, hefur kærandi kært bikarleik aðila sem fram fór þann 18. maí sl.
Lagt er fram:
Nr. 1 Kæra, dags. 21. maí 2004.
Nr. 2 Leikskýrsla leiks UMFH - Hamar 18.05.04 í bikarkeppni mfl. karla
Nr. 3 Útskrift úr félagakerfi KSÍ, dags. 21.05.04.
Nr. 4 Bréf dómsformanns til kærða, dags. 25. maí 2004.
Nr. 5 Afrit af tölvupósti frá skrifstofu KSÍ til kærða um keppnisleyfi, dags.
14. maí 2004.
Nr. 6 Yfirlýsing framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Stjörnunar, dags.
25.05.04.
Nr. 7 Greinargerð kærða, dags. 26. maí 2004.
Með ákvörðun dómsformanns var mál þetta látið sæta flýtimeðferð samkvæmt 8. gr. laga um dómstólla KSÍ. Með vísan til þess og málsins að öðru leyti, þykir ekki ástæða til að láta frekari sönnunarfærslu og málflutning fara fram fyrir dóminum. Er málið því tekið til úrskurðar sem kveðinn verður upp hér á sama stað kl. 17 fimmtudaginn 27. maí 2004.
Dómþingi slitið,
Hilmar Gunnlaugsson
Ár 2004, fimmtudaginn 27. maí er dómþing í Knattspyrnudómstól KSÍ háð af Hilmari Gunnlaugssyni, að Lagarási 4, Egilsstöðum.
Fyrir er tekið:
Mál nr. 2/2004
Knattspyrnudeild Hamars
gegn
knattspyrnudeild UMFH
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
ÚRSKURÐUR.
I.
Mál þetta er móttekið af skrifstofu KSÍ 25. maí sl. Kærandi er knattspyrnudeild Hamars, Pósthólf 134, 810 Reykjavík. Kærði er UMFH, knattspyrnudeild.
Málinu var úthlutað undirrituðum dómara í dómstól KSÍ þann 25. maí sl.
Dómkröfur.
Kærandi krefst þess að úrslit leiks sem fram fór á milli kæranda og kærða í VISA bikarkeppni KSÍ þann 18. maí 2004, verði dæmdur tapaður UMFH og lokatölum breytt í 0-3 Hamri í vil.
Kærði krefst sýknu af kröfum kæranda. Til vara krefst kærði þess að fari svo að fallist verði á kröfu kæranda, þá verði kærða ekki gert að sæta sekt.
II.
Formaður dómsins ákvað að láta málið sæta flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga um dómstóla KSÍ. Kærða var gefinn kostur á að skila greinargerð í málinu og það hefur hann gert.
Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum vísar kærandi til reglugerðar KSÍ um félagaskipti leikmanna - félagaskipti innanlands og hlutgengi. Kærandi byggir kröfu sína á því að kærði hafi notað ólöglegan leikmann í nefndum leik liðanna. Árni Baldvin Ólafsson hafi verið skráður í Stjörnuna, Garðabæ, þegar leikurinn fór fram.
Kærði heldur því fram að leikmaður sá er málið varðar hafi ekki verið viðriðinn Stjörnuna frá árinu 1996, þar sem hann lék í 2. flokki. Hefur kærði lagt fram yfirlýsingu framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Stjörnunar. Þá hefur kærði bent á að leikmaðurinn hafi verið stofnandi utandeildarliðs og leikmaður með því.
III.
Niðurstaða.
Í málinu er ekki um það deilt að á þeim tíma sem umþrættur leikur fór fram var Árni Baldvin Ólafsson skráður í Stjörnuna, Garðabæ, í gagnagrunni KSÍ. Á því virðist byggt af hálfu kærða, að ekki hafi verið nauðsynlegt að framkvæma félagaskipti, þar sem leikmaðurinn hafði ekki leikið með Stjörnunni í meistaraflokki og ekkert síðan 1996. Í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Stjörnunar virðist gefið í skyn að félagaskiptaferli hafi farið af stað vegna þessa leikmanns og jafnvel að því hafi verið skilað inn til skrifstofu KSÍ.
Í málinu liggur tölvupóstur frá skrifstofu KSÍ til fyrirsvarsmanns kærða, dags. 15. maí 2004, þar sem fram kemur að þartaldir leikmenn hafi fengið keppnisleyfi með UMFH frá og með 15. maí 2004. Árni Baldvin Ólafsson er ekki meðal þeirra sem þar eru taldir upp.
Reglur KSÍ um hlutgengi leikmanna eru skýrar. Í 1. gr. reglugerðar KSÍ um félagaskipti leikmanna segir að hlutgengir séu til þátttöku í knattspyrnumótum leikmenn, sem gerst hafa félagar í því félagi sem þeir keppa með, eigi síðar en degi áður en kappleikur fer fram. Þegar leikmenn hafa gerst félagar í félagi, verða þeir að skipta um félag með sérstakri tilkynningu til skrifstofu KSÍ, undirritaðri af þar tilgreindum aðilum. Undantekningin frá þessari reglu á við um leikmenn yngstu flokka og kemur ekki til skoðunar í þessu máli.
Af framansögðu og reglum KSÍ leiðir, að leikmaðurinn Árni Baldvin Ólafsson var ekki hlutgengur með liði UMFH í hinum kærða leik við Hamar. Breytir þar engu þó það hafi ekki verið ætlun UMFH að nota óhlutgengan leikmann. Með vísan til 1. mgr. 4.3. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, verður að dæma leikinn tapaðan fyrir kærða, 0-3.
Varakrafa kærða fjallar um niðurfellingu sektar. Í 3. mgr. 4.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót segir að lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks, skuli sæta sekt að upphæð allt að kr. 24.000. Að teknu tilliti til niðurstöðu málsins, málsatvika og aðstæðna að öðru leyti, þykir rétt að dæma kærða til greiðslu á kr. 12.000 sekt.
Hilmar Gunnlaugsson, dómari í Knattspyrnudómstól KSÍ, kveður upp dóm þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
UMFH telst hafa tapað leik gegn Hamri í VISA bikarkeppni karla, meistaraflokki, sem fram fór 18. maí 2004 með markatölunni 0-3.
Kærði, UMFH, greiði kr. 12.000 í sekt.
Hilmar Gunnlaugsson
Um áfrýjun:
Heimilt er að skjóta úrskurðinum til áfrýjunardómstóls KSÍ, og er áfrýjunarfrestur til áfrýjunardómstólsins 5 dagar frá því úrskurður dómstóls KSÍ var upp kveðinn og skulu almennir frídagar ekki telja þar með.
Dómþingi slitið
Hilmar Gunnlaugsson
föstudagur, maí 28
Nýlegar fréttir
- Drangur vs Hamar ;( Ja, eins helvíti skítt og það...
- Jónas Guðnason bestur á móti Ægi :) Hver var best...
- Kærumálið farið á fullt ! Það er nú bara ekkert a...
- 3. stig í höfn :) Við komum sáum og sigruðum :o) ...
- Stefán Helgi Einarsson kosinn bestur á móti FC Fam...
- Þá er það fyrsti deildarleikurinn ! Þessi deildar...
- Munum að rífa dúkinn af á morgun eftir dómaraprófi...
- Hver var bestur á móti SKALLAGRÍM? Hver var bestu...
- Þannig fór um sjóferð þá :( Það er alveg greinile...
- 1. Deildarleikur! Næsti leikur okkar er við Ægism...