þriðjudagur, febrúar 22

Leikmanna kynning 2005

Það skal tekið fram að leikmenn verða ekki kynntir í neinni sérstakri röð en upplýsingar sem birtast eru fengnar af ksi.is og úr kolli undirritaðs. Reynt verður að kynna einn í viku og verða upplýsingarnar jafnframt um leið settar í leikmannalistan undir viðkomandi nafni. Ef menn hafa einhverjar athugasemdir og/eða nánari upplýsingar um feril, eins og t.d leikjafjölda og skoruð mörk þá skulu þau sendast á bab3@hi.is og þeim verður komið til skila hér.
Fyrsti leikmaðurinn sem kynntur verður til sögunnar er Finnbogi Vikar Guðmundsson. Finnbogi spilar yfirleitt varnarhlutverk og er frambærilegur sem bakvörður jafn sem miðvörður. Hann hefur þó sóknarhneigð og vill vera þar sem boltinn er, hann sækir því oft í miðsvæðið á æfingum og harkar þar tuðruna af andstæðinunum. Hann var sjóari í nokkurn tíma og hafði því lítið spilað fyrir okkur um nokkurt skeið. Hann kom reyndar við sögu í síðasta leik okkar 2003 og missti þar svo eftirminnilega niður um sig buxurnar rétt áður en hann kom inn á. Hann spilaði hins vegar sjö leiki fyrir Hamar í sumar og skoraði eitt mark í leik á móti Bolungarvík á Grýluvelli, og kom okkur í 2-1. Hann kom sterkur inn í vörn liðsins og færði liðinu mikinn baráttuanda. Hann hefur tekið ákvörðun um að vera með Hamri í sumar og verður það án efa liðinu til góðs að hafa þennan gríðarsterka leikmann innan okkar raða.

Björn Ásgeir