Hamar-BÍ/Bolungarvík 3-2
Kærkominn 3-2 sigur |
Leikurinn byrjaði á því að liðin skiptust á því að sækja og bæði lið fengu ágætis færi en náðu ekki að nýta sér þau. Bestu færi Hamars fengu Siggi Gísli og Árni Geir, að mig minnir, sem voru báðir nálægt því að endurtaka leikinn frá því í fyrra en því miður var heppnin ekki með okkur. Það var síðan ekki fyrr en eftir um það bil hálftíma leik að Zoran skoraði mark leiksins af 40 metra færi. Hann fékk boltan á miðjunni, lét vaða á markið og boltinn fór í slánna og inn. Markið var þó algjörlega Rabba að þakka þar sem að hann hafði sent Zoran þrjú eða fjögur hugboð á serbnesku um að láta vaða á markið. Eftir markið sóttu Hamarsmenn í sig veðrið og leit út fyrir að við myndum klára leikinn. Það breyttist þó snarlega þegar BÍ/Bol-menn fengu hornspyrnu í lok hálfleiksins. Boltinn barst fyrir markið, þar skallaði einhver boltan í einhvern og upp í loftið, þaðan barst boltinn á vestfirðing sem setti boltan í markið. Staðan 1-1 í hálfleik en Hamarsmenn líklegri til að skora þótt jafnræði hefði verið með liðunum.
Í seinni hálfleik byrjuðu bæði lið af krafti. BÍ/Bol-menn náðu ágætis 10 mínútna kafla þar sem nokkrar hornspyrnur litu dagsins ljós og mikið fór fram á vallarhelmingi Hamars. Hlynur bjargaði nokkrum sinnum vel og fljótlega komust Hamarsmenn aftur inn í leikinn. Mörg færi litu dagsins ljós hjá okkar mönnum og hreint ótrúlegt að ekki tækist að skora. Siggi Gísli átti nokkra spretti og einhver átti skot í stöngina en inn vildi boltinn ekki. Það var ekki fyrr en að Jónas nokkur Guðnason var færður úr vinstri bakverði í vinstri kant að sóknarleikur Hamars skilaði árangri. Zoran fékk boltan á miðjunni, sendi frábæra sendingu út á vinstri kantinn þar sem Jónas kom á öðru hundraðinu. Hann rak boltan rétt inn fyrir vítateigs hornið og flengdi boltanum í slánna og inn. Sannarlega frábært mark hjá þessum knáa knattspyrnumanni. Stuttu síðar fékk Jónas góða sendingu inn í teig þar sem hann var í góðri stöðu en hann renndi boltanum rétt framhjá markinu. Rétt þegar venjulegum leiktíma var svo að ljúka var Jónas enn og aftur á ferðinni. Hann fékk boltan á miðjunni, sendi frábæra sendingu inn fyrir á Sigga Gísla sem loksins hafði heppnina með sér og skoraði gott mark með góðu slútti. Venjulegum leiktíma var lokið og Hamarsmenn slökuðu á. Þeir hefðu betur sleppt því vegna þess að BÍ/Bol-menn voru ekki hættir og náðu að skora eftir kæruleysi Hamarsmanna. Þegar boltanum var svo spyrnt í áttina að miðjunni til að taka lokaspyrnu leiksins klóraði Helgi sér í hausnum og dómarinn mat það að sjálfsögðu sem svo að hann hefði verið að tefja og gaf honum gult spjald og svo rautt í kjölfarið þar sem hann hafði áður fengið gult spjald í leiknum.
Í heildina séð ágætur leikur hjá Hamri og margt jákvætt í gangi hjá liðinu. Til dæmis spilaði Bjössi Rauði frábærlega í hægri bakverði í fyrri hálfleik og áttu hann og Árni Geir oft fína spretti saman á hægri kanti. Eins var Jónas að sýna frábæra baráttu og góða takta í leiknum og Milos og Rabbi að spila vel saman í hjarta varnarinnar. Einnig var ánægjulegt að sjá að hópurinn er stór og góður og þeir leikmenn sem komu inn á í leiknum voru að gera fína hluti. Það er þó margt sem að má betur fara og mun þjálfarinn fara betur í þá hluti á æfingu á morgun.
Byrjunarliðið: Hlynur í marki
Vörnin: Bjössi Red (Kristján 80) - Milos - Rafn - Jónas
Miðjan: Árni Geir (Trausti 45) - Helgi - Zoran - Dalibor (Heimir 75)
Sókn: Siggi Gísli - Tryggvi (Svenni 45)
Misnotaðir varamenn: Anton, Ásgeir, Sindri, Bjarni
Liðstjórn: Boban(þ) - Hjörtur - Valli