laugardagur, mars 10

Hamar-KFR 0-0

Siggi Gísli í baráttunni
Hamar og KFR mættust á gervigrasinu í Árbænum í dag í þéttings vindi og snjókomu. Fyrri hálfleikur einkenndist af þreifingum af beggja hálfu og gerðu bæði lið sig líkleg. Liðin skiptust á að hafa undirtökin og KFR fengu þrjú góð færi sem þeir misnotuðu. Sama var upp á teningnum hjá Hamri, sem fengu tvö eða þrjú færi sem hægt er að tala um, en náðu ekki að nýta þau. Moð, barátta og stefnuleysi eru kannski bestu orðin til að lýsa þessum hálfleik beggja liða.

Í seinni hálfleik hafði vindurinn snúist í þver-vallar-rok og heldur bætt í. Snjókoman lagðist í þver-snjó-slyddu-skafrenning með éljum á köflum. Mikið var um inná skiptingar snemma hálfleiksins sem setti æfingarleikja svip á spil liðanna og leikurinn varð tilviljanakenndari. Það litu þó nokkur færi dagsins ljós og KFR-ingar fengu nokkur hálffæri eftir að hafa sloppið í gegnum vörn Hamars en þeir náðu ekki að nýta sér þau. Anton og Ívan fengu bestu færi Hamars í seinni hálfleik en báðir komust þeir einir á móti markmanni KFR sem varði vel sem svo oft áður í leiknum. Æfingarleikur í hnotskurn er besta lýsingin á þessum leik en æfingaleikir hafa sinn tilgang.

Á morgun, sunnudag, er leikur gegn Ými í Kópavogi og mæting á sama stað og síðast klukkan 12:30. Allur æfingahópurinn er boðaður í leikinn.