sunnudagur, apríl 9

Styrktarballið

Í tilefni af styrktarballi Hamars sem fór fram á Hótel Örk síðastliðinn föstudag greip síðuhaldari formanninn glóðvolgan á tal og spurði hann hvernig atbuðurinn hefði farið fram.

Síðuhaldari: Sæll herra formaður, má ég eiga við þig fáein orð?

Formaðurinn: Æji, ég má ekkert vera að þessu kjaftæði ég er að fara græða meiri pening fyrir Hamar Group!

Síðuhaldari: En er ekki grundvöllur góðs fyrirtækis að almenningur viti hvað er að gerast innan veggja þess?

Formaðurinn: Jú, ætli það ekki! Drífum þetta þá af, hvað viltu vita?

Síðuhaldari: Hvernig fór svo ballið fram herra formaður?

Formaðurinn: Undirrituðum þótti ballið takast alveg ljómandi vel, 400-450 manns og því ánægjulega skemmtileg vinna fjármálastjórans kl:04:00 í nótt.

Síðuhaldari: Það voru gagnrýnisraddir á lofti fyrir ofurstaðhæfingar á auglýsingum fyrir ballið, hvað hefur þú um það að segja herra formaður?

Formaðurinn: Eitthvað var blaðamaður eins af vikulegu fréttablöðunum hér á Suðurlandi að furða sig á því hví þetta væri auglýst sem stærsta ball ársins og gaf það í skyn að svo yrði nú ekki....

Síðuhaldari: En var ekki nokkuð til í þeim efasemdarröddum?

Formaðurinn: Jú, en hjá meistaraflokknum er starfandi frábær markaðs- og auglýsingadeild sem skipulagði auglýsingaherferðina fyrir ballið og er greinilegt að fyrirsögn herferðarinnar "Stærsta ball ársins" hafi hitt naglann algjörlega á höfuðið. Stærsta ball ársins varð staðreynd og stemningin hjá ballgestum frábær.

Síðuhaldari: Hvað fannst strákunum í Svörtu fötunum um árangur dansleiksinns?

Formaðurinn: Hjómsveitin orðaði það svo að sjaldan eða aldrei hefði verið jafn gaman að spila á Suðurlandinu, þá hrósaði hljómsveitin einnig gestum kvöldsins fyrir óviðjafnanlega framkomu og dansigleði.

Síðuhaldari: Eitthvað fleira sem þú vilt koma á framfæri?

Formaðurinn: Undirritaður, fyrir hönd Hamar Group, þakkar mannauðardeild fyrir frábæra skipulagningu eftirlitsmanna á dansiballinu, söludeild fyrir vinnu sem skilaði 35% söluaukningu frá áætluðum söluspám og að sjálfsögðu öryggisdeild fyrir að halda ró og spekt meðal gesta.

Síðuhaldari: Þannig að þú ert sáttur við þetta?

Formaðurinn: Já og stjórn Hamar Group þakkar einnig starfsmönnum og hluthöfum fyrir óeigingjarnt starf og vonar að komandi verk muni reynast félaginu eins hagsæl og ánægjuleg.

Þannig endaði viðtalið við formanninn því hann skildi síðuhaldara eftir í reykmekki þar sem hann spólaði af stað í leit að meiri peningum fyrir Hamar Group.

Kveðja
Björn Ásgeir