mánudagur, apríl 16

Hamar-Hamrarnir 5-0

Hamar hamraði Hamranna

Topplið 2. riðils í C-deild Lengjubikarsins, Hamar og Hamrarnir frá Akureyri, áttust við á Selfossvelli í gær í blíðskapar veðri. Það var ljóst fyrir leikinn að Hamarsmenn ættu erfiðan leik fyrir höndum því Akureyringarnir hafa verið á mikilli siglingu síðustu vikur og ekki tapað leik í Lengjubikarnum líkt og Hamar. Í lið Hamars vantaði fimm leikmenn og munar um minna þegar kemur að toppslag líkt og þessum, á móti kom að tveir nýir leikmenn voru að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið og áttu þeir báðir eftir að koma við sögu í leiknum. . . .

Leikurinn byrjaði með miklum látum, Hamarsmenn voru staðráðir í að sýna Akureyringunum hverjir ættu toppsæti riðilsins réttilega skilið. Dalibor skoraði flott mark strax á 4. mínútu eftir að Hamarsmenn höfðu tætt sundur vörn Akureyringana, hans fyrsta opinbera mark fyrir Hamar. Á 9. mínútu skoraði nýliðinn Atli Levy og breytti stöðunni í 2-0, Atli tók þá á varnarmann Akureyringanna, komst einn á móti markmanninum og afgreidd boltann snyrtilega í markið. Hamarsmenn stjórnuðu leiknum algjörlega í fyrri hálfleik og var það hending ef Akureyringarnir komust fram yfir miðju. Þó áttu þeir eina hættulega sókn sem kom upp úr klaufalegum mistökum varnarmanna Hamars en Hlynur stóð sína plikt og bjargaði glæsilega eins og honum einum er lagið. Hamar sótti án afláts og á 44. mínútu kom flottasta mark leiksins. Dalibor fékk þá boltann rétt fyrir innan vinstra vítateygs hornið og þrumaði honum inn í markhornið fjær, gull af marki og algjörlega óverjandi fyrir markvörð Akureyringanna. Staðan var því 3-0 fyrir Hamar þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri, Hamarsmenn stjórnuðu leiknum en Akureyringarnir reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn. Á 51. mínútu skoraði hinn ,,nýliðinn”, Sölvi Örn Sölvason, flott mark. Önni, eins og hann var kallaður í Hveragerði í gamladaga, sem spilaði í vörninni hafði þá brugðið sér fram og var réttur maður á réttum stað og kláraði verkið með stæl. Gaman að fá Önna heim og aftur í Hamarsbúninginn, en hann spilaði síðast fyrir Hamar sumarið 1995 þar sem hann skoraði 3 mörk í 15 leikjum liðsins. Atli Levy sá svo um að reka síðasta naglann í kistu Akureyringanna með því að bæta við öðru marki sínu á 56. mínútu. Eftir þetta róaðist leikurinn örlítið en nokkrar sóknir voru efnilegar og hefðu með örlítilli heppni getað skilað marki. Helst var það Siggi Gísli sem varð fyrir barðinu á óheppninni en þeir sem viðstaddir voru töldu það vera vegna þess að hann hafi verið með hugann við það að hann þyrfti að mæta í skírn hjá frænku sinni þar sem hann yrði ,,you know, godfather...”. Don Siggi náði því miður ekki að setja inn mark í leiknum en var grátlega nálægt því í allmörg skipti og átti meðal annars skot í innanverða stöngina þar sem boltinn dansaði á línunni og lak út. Á síðustu mínútu leiksins var svo brotið á Tryggva inna vítateygs en ekkert dæmt og leikurinn endaði því 5-0 fyrir Hamar.

Á heildina litið var þetta góður leikur að hálfu Hamarsmanna, við héldum markinu hreinu og skoruðum 5 mörk. Spil innan liðsins var ágætt en má alveg bæta, stundum voru menn að hanga óþarflega mikið á boltanum. Vörnin og markvarslan kom vel út, örfá klaufamistök sköpuðu sem betur fer ekki mikla hættu en gegn sterkari andstæðingum væri okkur refsað illilega fyrir slíkt. Miðjan og sóknin náði vel saman og eru nýju leikmennirnir okkar að passa vel við ,,eldri” Hamarsmenn. Það er vonandi að þessi stígandi hjá liðinu haldi áfram og skili okkur árangri þegar alvaran hefst í sumar. En það er enn góður tími í Íslandsmótið og þurfa því menn að vera á tánum og alls ekki slaka á í æfingum. Við þurfum að sýna að hungrið í árangur er til staðar og að við munum berjast til síðasta manns til að uppfylla okkar drauma og væntingar fyrir sumarið.

Björn Björnsson var svo tekinn í létt viðtal eftir leikinn og spurður álita. Björn, sem ekki má sparka í bolta næstu fjórar vikurnar vegna aðgerðar hann var í, var að vonum kampakátur eftir leikinn enda óþreyttur á hliðarlínunni, aldrei þessu vant.

Síðuhaldari: Sæll Bjössi, ánægður með leikinn?
Bjössi: Jaah, blizzaer ma!

Síðuhaldari: Ha?
Bjössi: Já, margir jákvæðir puntkar frá mínum sjónarhóli, t.d. Önni sem stóð sig mjög vel og kom með mikla baráttu og leikgleði inn í liðið.

Síðuhaldari:Er hann ekkert orðinn of gamall í þetta?
Bjössi: Neinei, alls ekki.

Síðuhaldari: Voru fleiri nýliðar að blómstra í leiknum?
Bjössi: Já, Svenni var líka að spila vel, kom boltanum vel frá sér og vann vel og Atli var að tengja vel við miðjuna og hann og Siggi virtust ná vel saman.

Síðuhaldari: Voru úrslitin sanngjörn miðað við gang leiksins?
Bjössi: Já ég myndi segja það, en það var annars greinilegt að Hamrarnir voru þreyttir eftir leikinn gegn Skallagrími frá því daginn áður.

Síðuhaldari: Var Hlynur eitthvað fyrir í leiknum?
Bjössi: Hlynur hafði lítið að gera í fyrri hálfleik og í raun þurfti hann lítið að gera fyrr en í lok leiksins þegar Hamrarnir voru farnir að komast inn í leikinn en hann var klár í það þegar á reyndi.

Síðuhaldari: Eitthvað að lokum?
Bjössi: Jahh, bara að þeir strákar sem komu inn í byrjunarliðið voru að standa sig mjög vel sem er rosalega gott því að í dag reyndi á breiddina. Menn ganga ekkert inn í byrjunarliðið sem er ekkert nema snilld.

Byrjunarlið Hamars:
Hlynur
Örn - Zoran - Rafn - Milos(82)
Trausti - Boban(57) - Svenni - Dalibor(77)
Siggi Gísli(72) - Atli

Varamenn:
Egill(82) - Hafþór(57) - Sindri(77) - Tryggvi(72)

Mörk:
Dalibor 2 (4., 44.)
Atli 2 (9., 56.)
Örn (51.)

http://www.hamrarnir.tk/
Leikskýrsla KSÍ
Úrslit og staðan í riðlinum

Skrifað af formanninum