Hamar - BÍ
Hannes Bjartmar var gripinn glóðvolgur í klefanum eftir leikinn við BÍ í gær og spurður úr þeim fáu spjörum sem hann var í.Fréttaritari: Bara að taka það fram að það verða engar líkamlegar snertingar í þessu viðtali, ég lenti í smá veseni með Rabba síðast.
Hannes: Jáh, þú ættir að sjá hvernig hann lét í sturtunni eftir að þú fórst, þessi maður er náttúrulega ekki hægt!
Fréttaritari: Nei ég veit. En Jæja, hvernig var lagt upp í leikinn?
Hannes: Við ætluðum að byrja leikinn með því að sækja bara á þá af fullum krafti, vera ekkert mikið að bakka, heldur bara stjórna leiknum og sækja. BÍ byrjuðu hinsvegar með sterkan vind í bakið og því fór stór hluti fyrrihálfleiksins fram á okkar vallarhelmingi.
Fréttaritari: Náðu þeir að skora í fyrri hálfleik?
Hannes: Já, snemma leiks fiskuðu þeir aukaspyrnu við hlið vítateigsins okkar, nánast við endalínuna og nýttu sér vindinn og skoruðu beint úr henni uppi í nærhornið. Um miðjan fyrri hálfleik juku þeir síðan forystuna í 2-0 þegar boltinn hrökk af Birni Aroni í eigið net eftir hornspyrnu.
Fréttaritari: Voru þeir svona góðir??
Hannes: Nei, en ekki alveg byrjunin sem við ætluðum okkur. Árni Geir náði síðan að minnka muninn seinna í fyrri hálfleik eftir mikinn atgang í teignum eftir fyrirgjöf frá Marra. Helgi var síðan gríðarlega óheppinn undir lok hálfleiksins þegar hann vippaði yfir markmanninn en vindurinn feykti boltanum af leið eftir að hann hafði verið á leiðinni í fjærhornið. Ég var m.a. byrjaður að fagna, það hefði verið gott að ná að jafna fyrir hlé.
Fréttaritari: Hvernig var stemmningin í hálfleik?
Hannes: Í hálfleik vorum við allir sammála um að við værum miklu betri en þetta lið. Við vorum búnir að stjórna fyrri hálfleiknum, ég held þeir hafi ekki verið búnir að fá eitt einasta færi. Óheppni að fá þessi tvö mörk á okkur úr föstum leikatriðum. Svo við vorum staðráðnir í að fara í seinni hálfleikinn með það eitt í huga að vinna þennan leik.
Fréttaritari: Og í seinni hálfleik?
Hannes: Það var hinsvegar eins og við ætluðum bara að láta vindinn gera þetta fyrir okkur í byrjun seinni hálfleiks, þetta byrjaði eitthvað svo líflaust hjá okkur. En síðan fórum við að sækja í okkur veðrið og allt liðið búið að færa sig framar á völlinn þegar ég missti boltann við þeirra vítateig og þeir komust í skyndisókn og komust í 3-1. Restina af leiknum lágum við síðan í sókn fyrir utan örfáar rispur sem þeir tóku.
Fréttaritari: Hver minnkaði munin svo fyrir okkur?
Hannes: Marri stakk innfyrir á Sigga Gísla svo hann komst einn í gegn og lagði hann framhjá markmanninum og lagaði stöðuna í 3-2. Á þessum tímapunkti held ég að við höfum allir verið vissir um að við myndum ná að jafna og svo komast yfir, svo mikill var sóknarþungi okkar. Bjössi Rauði fékk eitthvað af afbragðsfærum sem fóru forgörðum og sjálfur hefði ég átt að skora með skalla þegar boltinn barst á fjærstöng en ég var svo nálægt stönginni að ég var örugglega hræddur um að skalla stöngina eða eitthvað. Síðan fékk ég líka boltann einn og óvaldaður inní teig eftir hornspyrnu, en í stað þess að gefa mér meiri tíma, tók ég hann í fyrsta og skaut yfir. Nei, ég átti semsagt ekki góðan dag! :)
Fréttaritari: Jákvæðir punktar?
Hannes: Þetta var leikur sem við vorum algjörlega að stjórna og spiluðum vel.
Fréttaritari: Neikvæðir?
Hannes: Verðum að nýta færin okkar betur, það er alveg á hreinu. Svo má alltaf gera betur í vörninni.
Fréttaritari: Eitthvað fleira?
Hannes: Ég ætla ekki að kenna dómaranum um eitt eða neitt en hann var hreint út sagt hræðilegur.
Þá fór Hannes að skrúbba á sér heilögu partana en byrjunarliðið var skipað Simma í markinu, Hannesi, Steina, Árna Geir og Birni Aroni í vörninni, Rafni og Kristmari á miðjunni og Helga fyrir framan þá. Bjössi Rauði og Binni voru á köntunum og Siggi Gísli á toppnum. Varamenn voru Tryggvi, Þórir og Siggi Gú en enginn þeirra kom inná og formaðurinn var liðstjórinn.
Við höfum mætt BÍ tvisvar áður í móti og var það sumarið 2004. Við töpuðum 4-0 á Ísafirði, 0-2 á Grýluvelli og núna 3-2 og því samtals 9-2!
Kveðja
Björn Ásgeir