miðvikudagur, júní 28

Fyrir leik...

G.G. = Geggjuð geit
Nú er komið að þriðja heimaleik Hamars í sumar þegar lið GG frá Grindavík heimsækir Hveragerði. Hamar hefur einu sinni áður mætt GG en það var í deildarbikarkeppni KSÍ vorið 2005 og höfðu GG menn betur í það skiptið. Þetta er annað árið í röð sem GG sendir lið í deildarkeppni KSÍ eftir nokkuð hlé en þeir voru hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni 3. deildar í fyrra þegar þeir höfnuðu í þriðja sæti A-riðils. Lið GG er byggt upp af góðri blöndu ungra leikmanna með reynslubolta inn á milli en þeir leikmenn sem Hamarsmenn þurfa að varast eru til dæmis leikmaður númer sex, Davíð Arthur Friðriksson, sem skorað hefur þrjú mörk í fjórum leikjum í deildinni og leikmaður númer fimm, fyrirliðinn Leifur Guðjónsson, sem skorað hefur tvö mörk í fjórum leikjum.

GG gerði jafntefli við Gróttu, sem er í öðru sæti riðilsins, en Hamar tapaði einmitt illa fyrir því liði á Seltjarnarnesinu fyrir stuttu. Jafnframt er GG eina liðið sem hefur unnið topplið riðilsins, Víðir í Garði, en GG menn gerðu sér lítið fyrir og unnu þá 5-0 á Grindarvíkurvelli. Þeir hafa því sannað að þeir eru með hörku lið og eru til alls líklegir í sumar og verður því spennandi að sjá hvort Hamarsmenn nái að halda áfram sigurgöngu sinni á heimavelli gegn þessu sterka liði, en Hamar hefur unnið báða heimaleiki sína í sumar og vilja gjarnan halda því áfram.

Það er mikilvægt að Hvergerðingar haldi áfram að fjölmenna á völlinn og styðja við bakið á Hamarsmönnum í heimaleikjunum því að dyggur stuðningur gefur heimamönnum byr undir báða vængi. Mætum öll á völlinn og styðjum okkar menn til sigurs.

Fulltrúar yngri flokka Hamars munu bjóða áhorfendum upp á rjúkandi heitt kaffi og kleinur á sanngjörnu verði og Kjörís býður öllum krökkum, sem og öðrum dyggum stuðningsmönnum, frían frostpinna.

Sjáumst á vellinum

ÁFRAM HAMAR!!!