fimmtudagur, júní 15

Fyrir leik...

Hver á þetta?
Nú er þremur umferðum lokið í A-riðli 3. deildar og Hamar, sem unnið hefur tvo leiki og tapað einum, er einungis einu stigi frá toppsætinu. Á föstudaginn er komið að fjórðu umferð og öðrum heimaleik Hamars í sumar þegar KV, knattspyrnufélag Vesturbæjar, mun leggja leið sína til Hveragerðis. Þetta er annað tímabil KV í þriðju deildinni en í fyrra enduðu þeir í fimmta sæti A-riðils. Hamar og KV mættust fyrst opinberlega nú í vor í deildarbikarkeppni KSÍ og unnu KV þann leik 4-0 í vesturbænum en þeir voru gríðarlega sterkir í deildarbikarnum. KV-menn fóru taplausir í gegnum okkar riðil og spiluðu úrslitaleikinn í C-deildinni gegn Hvíta Riddaranum. Í Visa-bikarnum komst KV alla leið í þriðju umferð en var þar slegið út af 2. deildar liði Aftureldingar.

KV liðið samanstendur af mörgum góðum einstaklingum og má þar til dæmis nefna Magnús Bernhard Gíslason sem skoraði níu mörk í fimm leikjum í deildarbikarnum og Steindór Odd Ellertsson sem skoraði 4 mörk í fjórum leikjum í deildarbikarnum í vor. KV hefur ekki enn náð sigri í deildinni í sumar en þeir töpuðu 3-1 gegn Víði á útivelli, gerðu jafntefli við Ægismenn í vesturbænum og töpuðu svo 2-0 í Eyjum gegn KFS. Vesturbæjardrengirnir mæta því væntanlega banhungraðir til leiks á Grýluvöll á föstudaginn með það eitt að markmiði að ná í sinn fyrsta sigur í deildinni.

KV-menn segja þetta fyrir leik: www.fckv.com

Flautað verður til leiks klukkan 20:00 á föstudaginn og eru Hvergerðingar og nærsveitungar hvattir til að fjölmenna á völlinn og styðja Hamarsmenn í að verja heimavöllinn. Með áhorfendur sem tólfta mann geta Hamarsmenn tryggt sér dýrmæt stig á Grýluvelli í sumar sem er grundvöllur góðs gengis. Það verður heitt kaffi á könnunni, ís frá Kjörís fyrir börnin og hressandi tónlist í hálfleik.

sjáumst á vellinum.