miðvikudagur, júlí 26

Fyrir leik...

Siggi Gísli sýnir fína sólan sinn
Mynd: sunnlenska/gks

Á fimmtudaginn er komið að einum stærsta heimaleik sumarins þegar lið Gróttu frá Seltjarnarnesi mætir á Grýluvöll. Grótta er sem stendur efst í A-riðili og hefur einungis tapað einum leik í sumar. Liðið fór í úrslitakeppnina í fyrra og hafnaði þar í þriðja sæti og eru ekki með síðra lið í ár og eru mjög líklegir til að verða annað liðið úr A-riðli sem fer í úrslitakeppnina. Grótta hefur í sínum röðum frábæra einstaklinga bæði unga og spræka sem og eldri reyndari í bland. Spilandi þjálfari þeirra, Ásmundur Guðni Haraldsson, er einn af beittari sóknarmönnum þriðju deildarinnar en hann hefur skorað 12 mörk í níu leikjum og er markahæstur í A-riðli.

Hamarsmenn ætla sér sigur á móti Gróttu og ekkert annað til þess að halda sér í topphlut deildarinnar og baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Hamarsmenn hafa átt frábæra spretti í sumar og verið erfiðir heim að sækja og er ætlunin að halda því áfram. Því hvetjum við alla Hvergerðinga til að fjölmenna á völlinn til að láta í sér heyra og styðja þannig við bakið á okkar mönnum því með miklum og góðum stuðningi ykkar er allt hægt. Allir sem eiga trommur, lúðra eða önnur skemmtileg hljóðfæri eru hvattir til að taka þau með sér á völlinn og skapa þannig brjálaða stemmningu fyrir Hamarsmenn.

Á leiknum verður gestum boðið kaffi og kleinur á sanngjörnu verði hjá fulltrúum yngri flokka Hamars. Þá mun Kjörís einnig bjóða yngri kynslóðinni uppá frían frostpinna.

Sjáumst á vellinum, ÁFRAM HAMAR!!!