miðvikudagur, júlí 12

Fyrir leik...

A.L.Á.= Afríka leikur ágætlega
Á föstudaginn mun knattspyrnulið Afríku mæta til Hveragerðis og spila gegn Hamri á Grýluvelli. Afríka er sennilega eitt af þekktari liðum þriðju deildarinnar en þeir gáfu út heimildarmynd um lið sitt fyrir stuttu sem fékk góðar móttökur. Í myndinni mátti sjá Hamarsmönnum bregða fyrir því þessi lið mættust tvisvar á meðan á upptökum stóð sumarið 2003. Þá var Yngvi Karl Jónsson þjálfari Hamars en Hamar vann báðar viðureignir liðanna það sumarið, 0-1 á Þróttarvelli og 7-1 á Grýluvelli og er það stærsti sigur Hamars eftir að við hófum þátttöku í deildarkeppni KSÍ að nýju. Í þeim leik skoraði Sigurður Gísli Guðjónsson sína fyrstu þrennu í meistaraflokki og það gerði hann á einungis 15 mínútna kafla, á 60., 70., og 75. mínútu, og setti þar með met hjá Hamri.

Afríka sendir nú lið sitt til Íslandsmóts í fjórða skipti og heimsóttu Hamarsmenn
liðið í Laugardalinn í fyrstu umferð sumarsins. Hamar hafði þar betur 0-2 með mörkum frá nýliðunum Mladen og Milos sem skoruðu þar báðir í sínum fyrsta leik fyrir Hamar. Lið Afríku hefur marga góða einstaklinga innan sinna raða sem þurfa ekki mikið pláss til að klára leiki en þeim hefur þó ekki gengið nógu vel að stilla saman strengi í sumar og eru neðstir í A-riðli. Þeir eru án efa orðnir hungraðir í sigur og koma því til Hveragerðis til þess að ná í sinn fyrsta sigur. Hamarsmenn þurfa því að mæta tilbúnir til leiks því Afríka er sýnd veiði en ekki gefin. Heildar markatala liðanna frá fyrri viðureignum er 10-1 Hamar í vil en Hamarsliðið hefur aldrei tapað
fyrir Afríku.

Með stuðningi bæjarbúa er ætlunin að halda því þannig þetta árið og sigra lið Afríku í þessari fjórðu viðureign liðanna og hvetjum við því alla Hvergerðinga til að fjölmenna á völlinn og láta í sér heyra og þiggja kaffi og kleinur á sanngjörnu verði hjá fulltrúum yngri flokka Hamars. Þá mun Kjörís einnig bjóða yngri kynslóðinni uppá frían frostpinna.

Sjáumst á vellinum.
ÁFRAM HAMAR!!!