sunnudagur, apríl 3

Klaufaskapur í fyrsta leik


VS.


Við spiluðum okkar fyrsta leik í C-deild deildabikars KSÍ gegn B-liði HK, sem leikur undir merkjum Siglingafélagsins Ýmir.

Leikurinn var í okkar eigu fyrri hluta fyrri hálfleiks og átti Kalli meðal annars skot strax á 4.mín sem hafnaði í slánni hjá siglingamönnunum, en ens og svo oft áður þá voru heilladísirnar okkar ekki með okkur í leiknum og fengum við á okkur 2 hræódýr mörk á 19. og 29.mín. Jón Steinar átti síðan þrumuskot sem small í stönginni hjá Ými og á 43.mín skoruðu þeir síðan sitt 3. ódýra mark eftir dekkningarmisskilning í hornspyrnu, staðan 0-3 í háfleik. Þá var brugðið á það ráð að hringja í og vekja heilladísirnar okkar. Kom þá í ljós að þær höfðu skellt sér í opnunarpartí á Snúllabar kvöldið áður og sofið yfir sig. Eins og allir vita þá tekur dágóðan tíma að keyra úr Hveragerði til Garðabæjar þar sem leikurinn fór fram og á meðan þær voru á leiðinni þá settu Ýmismenn 2 mörk í viðbót á okkur, annað var þeim afhent á silfurplatta. Þó kviknaði eitthvað í mönnum þegar fréttist að heilladísirnar væru staddar við Rauðavatn, um það leiti er fregnirnar bárust til leikmanna inn á vellinum átti Hannes skot sem hafnaði í stöng Ýmirs marksins. Þegar heilladísirnar loks mættu á svæðið var staðan orðin 0-5 fyrir Siglingafélagið og útlitið svart, en með nærveru dísanna settum við tvö mörk á Ýmir og löguðum stöðuna aðeins. Fyrst skoraði Hannes úr víti á 81.mín og síðan þrumaði Jónas boltanum inn af 25 m færi á 82.mín, eftir það gerðist ekkert merkilegt í leiknum og endaði hann því 2-5 fyrir Ýmir. Einsi var að spila ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki snert aðra bolta en sín eigin frá því síðasta sumar, Njörður, Stebbi, Jónas og Kiddi stóðu sig vel í vörninni þrátt fyrir að við höfum fengið á okkur 5 mörk. Á miðjunni voru Rafn, Ásgeir, Kalli og Sindri að gera fína hluti og frami voru Hannes og Jón Steinar sífellt ógnandi. Haffi og Helgi komu síðan sterkir inn af bekknum í síðari hálfleik. Undir lokin fékk síðan formaðurinn að spreyta sig í smástund. Í heildina vorum við að spila vel en við vorum ferlega óheppnir í leiknum, áttum 3 skot sem höfnuðu í tréverkinu hjá andstæðingunum og fengum á okkur 4 ódýr mörk, en ýmislegt þarf þó að laga. Stígandi er í liðinu og var sérstaklega gaman að sjá ungu strákana (Jón Steinar, Sindra og Helga) standa sig svona vel í sínum fyrsta leik fyrir meistaraflokkinn. Fyrir næsta leik þufum við þó að muna eftir að taka heilladísirnar okkar með þegar lagt verður af stað.

Formaðurinn