Spilaðir voru tveir leikir um helgina, sá fyrri á laugardaginn í deildarbikarnum gegn Sindra og sá seinni á sunnudeginum í vormóti Árborgar gegn Árborg.
Ég vill byrja á því að tilkynna hér með opinberlega að þær heilladísir sem hafa lofað okkur sínum stuðningi, eru reknar og vinsamlegast beðnar að láta ekki sjá sig á leikjum Hamars í framtíðinni. Hafnar eru viðræður við annan hóp heilladísa sem virðast við fyrstu sýn vera mjög áreiðanlegar og uppfullar af eldmóð sem verður nýttur til stuðnings við okkar ástkæra félag.
Leikurinn við Sindra var ferlega sorglegur, margt jákvætt var í gangi hjá Hamarsmönnum og er greinilegt að nýju mennirnir okkar munu styrkja liðið vel í baráttunni í vor og sumar. Daníel Þróttari var að spila sinn fyrsta leik í markinu og stóð sig bara ágætlega, sömu sögu er að segja af Halldóri varnarmanni sem mun án efa reynast okkur happafengur. En eins og fyrr segir þá voru heilladísirnar ekki með okkur í leiknum og þegar það gerist er voðinn vís. Sindramenn komust í 1-0 með föstu skoti frá vítateygs horninu í fyrri hálfleik. Hamarsmenn voru þó síst lakari aðilinn í leiknum og hefðu (með stuðningi heilladísana) átt að vera búnir að jafna áður en flautað var til hálfleiks. Á 25.mín fyrri hálfleiks lenti Kalli í samstyði við markvörð Sindra og endaði stuðið með því að litli putti hægri handar Kalla brotnaði. Er búist við því að Kalli verði frá í 2-3 vikur vegna þess. Í síðari hálfleik skoraði Rafn glæsilegt mark stuttu eftir að Hannes hafði brennt af vítaspyrnu, staðan orðin 1-1. Halldór klúðraði síðan öðru vítinu sem við fengum og þá var heilladísunum sagt upp störfum á staðnum. Skömmu fyrir leikslok skoruðu síðan Sindramenn og úrslit leiksins 2-1, sorglegt, svekkjandi og ósanngjarnt. En svona er víst boltinn og nú er bara að byggja upp á jákvæðu hlutunum og þá getur allt gerst. Það er mikill stígandi í liðinu og gríðarlegur munur að sjá spilamennskuna frá því þegar við við byrjuðum æfingar í vetur.
Leikurinn við Árborg var spilaður af B-liðinu okkar og nokrum mönnum sem höfðu spilað deginum áður í deildarbikarnum. Jónar var settur í markið í fyrri hálfleik og í þeim seinni var fenginn lánaður markmaður úr utandeildarliðinu "Markaregn". Þessi leikur var ágætlega spilaður af okkur og var mun meira spil í gangi hjá okkar liði. En Árborgararnir höfðu viljann og kraftinn sem þurfti til að klára dæmið, leikurinn endaði 6-2 fyrir Árborg eftir að staðan hafði verið 2-1 í hálfleik. Rafn og Ágúst skoruðu okkar mörk. Þessi leikur var ekki eitthvað sem Árborgarar geta verið stoltir af, þeir spiluðu á köflum grófan og háskalegan bolta og hefur aldrei sést til jafn leiðinlegs liðs og þess sem Árborg tefldi fram í þessum leik, en sigurinn verður ekki af þeim tekinn og þeir eru líklega mjög ánægðir með það. Við hlökkum mikið til sumarsins þegar okkur gefst tækifæri til að hefna ófaranna í þessum leik. Þá mun jörð skjálfa á suðurlandi.