fimmtudagur, maí 4

C-riðli lokið

Hvað er líkt með þessum?
Í gær fóru fram síðustu tveir leikirnir í C-riðli deildarbikar Ksí. Einungis úrslitaleikurinn er eftir en hann er á milli KV og Hvíta Riddarans og fer fram á sunnudaginn. Í ár tók Hamar þátt í annað skipti í deildarbikarnum og náði betri árangri en árið áður. Við enduðum með 4 stig í fimmta sæti með markatöluna 12/16 og segir hún margt um hvað hefði mátt fara betur í mótinu. Annað hvort að skora miklu meira eða koma í veg fyrir að fá á sig 16 mörk í fimm leikjum sem er aldrei vænlegt til sigurs og þrátt fyrir ágætis sóknartilburði náðum við ekki að ná inn eins mörgum stigum og okkur fannst við eiga inni. En mótið í heild var gott, skilaði leikæfingu, framförum og samstillingu í liðinu sem að lofar góðu fyrir framhaldið. Sigurður Gísli Guðjónsson var markahæstur í mótinu fyrir Hamar með 5 mörk en fast á hæla hans kom nýliðinn Brynjar Elefsen með fjögur og greinilegt að hann mun veita Sigga harða samkeppni í markaskorun í sumar. Eitt mark var sjálfsmark og hin tvö skoruðu Bjössi Björns og Árni Geir.

Lokastaðan í riðlinum
13 stig - KV
12 stig - Snörtur
8 stig - Skallagrímur
6 stig - BÍ
4 stig - Hamar
0 stig - Bolungarvík

Það eru einungis tveir leikmenn sem hafa spilað alla deildarbikarleiki Hamars og aðeins tveir sem hafa skorað fleiri en eitt mark. Í þeim tíu leikjum sem við höfum spilað höfum við skorað 18 mörk, fengið á okkur 10 gul spjöld og eitt rautt.

Leikjahæstir í deildarbikar
10 leikir - Rafn H. Rafnsson (fyrirliði í öllum)
10 leikir - Helgi Guðnason
9 leikir - Hannes Bjartmar Jónsson
8 leikir - Björn Björnsson
8 leikir - Hafþór Vilberg Björnsson
5 leikir - Björn Ásgeir Björgvinsson
5 leikir - Jónas Guðnason
5 leikir - Kristmar Geir Björnsson
5 leikir - Sigmar Karlsson (M)
(Aðrir með færri en fimm)

Markahæstir í deildarbikar

5 mörk í 4 leikjum - Sigurður Gísli Guðjónsson
4 mörk í 4 leikjum - Brynjar Elefsen Óskarsson
(Engin annar hefur skorað meira en eitt mark)

Spjöld í deildarbikar
Það eru bara tveir leikmenn sem hafa fengið tvö gul spjöld í þeim deildarbikar leikjum sem Hamar hefur leikið og kemur ekki á óvart að Sigurður Gísli sé einn af þeim, en hin er ég sjálfur. Þá hefur einungis einu sinni verið veifað rauða spaldinu á okkur í deildarbikarnum en það var á móti Hvíta Riddaranum í fyrra þegar formaðurinn þaut inn völlinn og lét heldur betur finna fyrir sér. Hraustur maður hann er og gerði sér ekki alveg grein fyrir styrk sínum því að hann þaut útaf, eftir að hafa fengið beint rautt, eftir aðeins tíu mínútna leik. Ég held svei mér þá að það sé met hjá Hamri og ef engin hefur vitnisburð um annað þá er það hér með opinberað að Hjörtur Sveinsson á met í að láta reka sig útaf eftir stysta veru á vellinum eða frá 71. mínútu til 81. mínútu.

Nú er þessu vormóti lokið og Hamarsmenn geta farið að einbeita sér að næsta verkefni sem er Visa-Bikarinn. Fyrstu andstæðingar okkar í honum er Drangur og fer leikurinn við þá fram þann 13. maí á Víkurvelli. Svo fylgir Íslandsmótið í kjölfarið þann 23. maí þegar við mætum Afríku á gervigrasinu í Laugardal og svo KFS á Grýluvelli þann 29 maí.

Baráttukveðjur
Björn Ásgeir