Fyrir leik...
|
Mæta sterkir til leiks |
Fyrsti heimaleikur Hamars í sumar er gegn sterku liði KFS frá Vestmannaeyjum. Liðin hafa þrisvar áður mæst opinberlega og fyrsta viðureignin, og jafnframt fyrsti leikur Hamars eftir fjögurra ára hlé frá keppnum KSÍ, var einmitt gegn KFS í VISA-bikarnum sumarið 2003. KFS var á þeim tíma að spila í 2. deild og var með feiknar sterkt lið. Þessi leikur endaði 1-4 KFS í vil þrátt fyrir mikla baráttu Hamarsmanna. Hinar tvær viðureignirnar voru síðasta sumar og er fyrri leikurinn, sem fór fram á Grýluvelli, af flestum sem hann spiluðu talinn eftirminnilegasti leikur Hamars það tímabil. Sumarið hafði verið liðinu erfitt fram að leiknum og illa hafði gengið vegna þess hve ungt og óreynt það var. En Hamar gerði sér lítið fyrir og sigraði leikinn 3-2, í fyrsta leik undir stjórn Rafn H. Rafnssonar, með tvemur mörkum frá Rafni sjálfum og einu frá Birni Björnssyni. Síðasti leikur liðanna fór svo fram í ágúst í fyrra og vann KFS þann leik auðveldlega en Hamar sendi fámennan hóp út til eyja og fékk þar af leiðandi slæma útreið.
Lið KFS hefur verið mjög sterkt í gegnum tíðina og ýmist spilað í annari deild eða verið í toppbaráttunni í þriðju deild. Þeir hafa sterkan og kraftmikinn hóp manna sem hefur spilað lengi saman. Í broddi þeirrar fylkingar er gamla ÍBV hetjan Hjalti Jóhannesson en aðrir leikmenn KFS sem hafa spilað allar viðureignir Hamars og KFS eru Yngvi Magnús Borgþórsson sem skorað hefur fimm mörk í þeim þremur leikjum gegn Hamri og Trausti Hjaltason hefur skorað tvö mörk í þeim.
KFS hefur verið að gera ágæta hluti nú í vor og gerðu til dæmis 3-3 jafntefli við fyrstu deildarliði Hauka og unnu Ægi frá Þorlákshöfn 5-0 í VISA-bikarnum. Það má því búast við hörkuleik þegar eyjapeyjarnir mæta á Grýluvöll og ljóst að Hamarsmenn verða að gefa allt sem þeir eiga í leikinn til þess að ná þremur stigum af þessu reynslumikla liði. Nú hvetjum við alla Hvergerðinga til að fjölmenna á völlinn og styðja Hamarsmenn til sigurs sem þeirra tólfti maður í baráttunni.