mánudagur, júlí 17

Hamar-Afríka

Bjössi girðir sig í brók
Lið Afríku mætti til Hveragerðis á föstudaginn í mun betra veður en bestu veðurfræðingar þorðu að vona. Útlitið var slæmt framan af degi og um tíma leit út fyrir að leiknum yrði frestað. Grýluvöllur var einn stór pollur þangað til Rafn, Siggi og Björn Aron skrúfuðu litla rifu á bílrúðuna og sögðu fylgdarhóp sínum að ná í gafla og stinga göt á völlinn. Það, ásamt veðrinu sem Afríkumenn komu með, gerði leikinn mögulegan og Gylfi Þór Orrason flautaði leikinn á klukkan 20:00 að staðartíma í ágætu veðri.

Leikurinn byrjaði svipað og síðasti heimaleikur Hamars og lengi leit út fyrir að Hamarsmenn væru hreinlega ekki mættir á völlinn. Það gerði þó lítið til því að lið Afríku var arfaslakt og náði ekki að nýta sér það. Siggi Gísli skoraði fyrsta markið á 5. mínútu upp úr engu. Hann bætti svo við öðru og þriðja markinu á 8. og 13. mínutu og bætti þar með eigið met með því að skora þrjú mörk á innan við átta mínútum. Eftir það voru örlagaríkar mínútur í vændum því að á 30. mínútu var Björn Ásgeir (ég) rekinn af velli en hann (ég) fékk beint rautt eftir að hafa dottið á sóknarmann Afríku sem féll skömmu síðar kylliflatur. Nokkrum mínútum síðar var nafni hans (minn) er kenndur er við rautt felldur í vítateig andstæðingana og vítaspyrna dæmd. Marri tók spyrnuna en arfaslakur markvörður Afríku varði. Ekki voru þetta einu hamfarir Hamarsmanna á þessum mínútum því í næstu sókn skoruðu Afríkumenn eftir sól og spól í vörninni. Marri bætti svo upp fyrir vítið á 44. mínútu og þar við sat í hálfleik en hamarsmenn einum leikmanni færri og það engum smá leikmanni.

Í seinni hálfleik urðu Afríkumenn aðeins þreyttir og fóru að detta í svæsnar tæklingar hér og þar á vellinum og uppskáru tvö gul spjöld. Einn leikmaður þeirra fékk svo beint rautt á 68. mínútu og því var jafnt í liðum það sem eftir lifði leiks. Seinni hálfleikur var þófkenndur, eins og reyndar allur leikurinn, og mátti vart sjá góðan fótbolta. Eina mark seinni hálfleiksins kom ekki fyrr en á 80. mínútu en það var enginn annar en Helgi Jónasarbróðir sem að setti sitt fyrsta mark í íslandsmóti með meistaraflokk og er hann nú næstum því orðinn markahærri en bróðir sinn. Annað markvert gerðist ekki í þessum leik sem skildi eftir tvö lið sem hvorugu leið eins og sigurvegara.


Byrjunarliðið á móti Afríku
Byrjunarliðið
Aftari frá vinstri: Robert, Árni Geir, Marri(Þ), Mladen, Björn Ásgeir, Rabbi(F).
Fremri frá vinstri: Milos hestur, Bjössi Red, Björn Aron, Siggi Gísli, Árni tvíbbi.

Skiptingar
55. Steini tvíbbi
55. Rabbi

75. Helgi Guðna
75. Bjössi Red

80. Heimir Logi
80. Marri

83. Haffi Björns
83. Siggi Gísli

Liðsstjórn
Hjörtur Sveinsson
Valgeir Ásgeirsson

Spjöld
30. Björn Ásgeir

Mörk
5. Siggi Gísli
8. Siggísli
13. Skýsli
44. Kristmar
80. Helgi Guðna

Maður leiksins: Siggi Gísli



Siggi Gísli bætti sitt eigið met í leiknum en hann skoraði þrennu á innan við átta mínútum. Fyrra metið hans var rétt tæpar 15 mínútur en það var hans fyrsta þrenna í meistaraflokk sem hann skoraði einmitt gegn Afríku sumarið 2003 á Grýluvelli.

Siggi siglir nú fram úr öllum sem skorað hafa fyrir Hamar og er kominn með 19 mörk en Óli Jó skoraði 13 mörk fyrir Hamar á sínum tíma og Gummi Baldurs er þriðji markahæstur frá upphafi með 10 mörk.

Helgi Guðna var að skora sitt fyrsta mark í Íslandsmóti fyrir Hamar.

Björn Ásgeir fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum í leiknum eftir að hafa spilað um 50 leiki í íslandsmóti fyrir Hamar.

Hamar hefur mætt Afríku fjórum sinnum og aldrei tapað. Markatalan er 15/2 Hamar í vil.

Það voru um það bil 110 áhorfendur á leiknum. . .

Frétt Sudurland.is um leikinn

Leiksýrsla Ksí

Þið getið smellt á myndirnar til að sjá þær stærri. . .